Valdimar meiddur í baki – Reiknar með að verða orðinn góður fyrir maraþonið

Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson meiddist á baki í vikunni og gat því ekki stjórnað opinni æfingu ásamt Birnu Markús einkaþjálfara, þar sem ganga átti frá Hljómskálagarðinum niður í Nauthólsvík. Söngvarinn góðkunni undirbýr sig þessa dagana fyrir Reykjavíkurmaraþonið sem fram fer á laugardaginn, en þar ætlar hann, þrátt fyrir bakmeiðslin að hlaupa 10 kílómetra.
Söngvarinn tilkynnti um meiðslin í myndbandi á Facebook-síðunni Mín áskorun, sem hann heldur úti og sjá má hér að neðan.
Hann reiknar þó með því að vera orðinn góður á laugardaginn, þó meiðslin setji vissulega strik í reikninginn í undirbúningnum. „Ég hefði verið til í að vera að æfa núna, en það verður bara að hafa það, maður verður að spara sig.“