Nýjast á Local Suðurnes

Sverri Sverrissyni dæmdar 19 milljóna króna bætur vegna fasteignaviðskipta á Ásbrú

Ásbrú fasteignir ehf. var þann 1. febrúar síðastliðinn dæmt til að greiða Sverri Sverrissyni ehf. 19 milljónir króna auk vaxta vegna vanefnda fyrrgreinda félagsins í fasteignaviðskiptum á Ásbrú.

Málið, sem fyrst var þingfest þann 27. júní á síðasta ári, snérist um á annað hundrað milljóna króna fasteignaviðskipti félaganna með eignina Valhallarbraut 738. Tjón Sverris Sverrissonar ehf., vegna vanefnda fasteignafélagsins, er til komið vegna bindandi kauptilboðs frá þriðja aðila, Vallarvinum ehf., til hlutafélags Sverris í fasteignina, en Vallarvinir höfðu greitt inn á vörslureikning hjá fasteignasala stærstan hluta kaupverðsins.  Dóminn í heild sinni má finna hér.

Bæði félög hafa verið stórtæk á fasteignamarkaði á Ásbrú eftir að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hóf sölu á eignum á svæðinu. Ásbrú fasteignir, móðurfélag þess og dótturfélög hafa til að mynda fjárfest á svæðinu fyrir um fimm milljarða króna eftir því sem fram kemur í dómnum. Félög tengd Sverri Sverrissyni athafnamanni hafa einnig verið áberandi í fasteignaviðskiptum á svæðinu, meðal annars í samstarfi með fyrrum framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins.