Nýjast á Local Suðurnes

Skólaþjónustan býður upp á námskeiðið Uppeldi barna með ADHD

Skólaþjónusta Reykjanesbæjar er að fara af stað með foreldrafærninámskeiðið Uppeldi barna með ADHD. Góður rómur hefur verið gerður að námskeiðunum. Skráningin fer fram rafrænt á Mitt Reykjanes og er það niðurgreitt að hluta af skólaþjónustunni.

Tilgangur námskeiðsins er að fræða foreldra um áhrif ADHD á tilveru barna. Einnig að styðja þá í að tileinka sér uppeldisaðferðir sem henta börnum með ADHD. Foreldrar barna sem hafa hamlandi einkenni ofvirkni og/eða athyglisbrest (ADHD) samkvæmt formlegri skimun eða fullnaðargreiningu geta sótt námskeiðið.

Að sögn Einars Trausta Einarsson yfirsálfræðings hentar efni námskeiðsins best fyrir foreldra barna á aldrinum 5 til 12 ára, sem hafa ekki margar eða flóknar fylgiraskanir. „Foreldrar skoða núverandi stöðu, gera áætlanir og framfylgja þeim til að taka á eða fyrirbyggja ýmsan vanda sem algengt er að upp komi. Markmiðið er að foreldrar læri hagnýtar og sannreyndar aðferðir sem nýtast þeim til lengri tíma.“

Kennt verður á þriðjudögum og miðvikudögum kl. 17:00 – 19:00 í Fjölskyldusetrinu við Skólaveg 1. Námskeiðskostnaður fyrir par er 10.000 krónur en 8.000 krónur fyrir einstakling.

Kennsludagar eru eftirfarandi:

10. október
16. október
24. október
30. október
7. nóvember
21. nóvember