Lét sig hverfa með reyktan silung og lax

Karlmaður sem varð uppvís að því að stela reyktum silungi og laxi úr verslun í Keflavík í vikunni tók sprettinn með fenginn og lét sig hverfa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Vegfarandi sem var á reiðhjóli fyrir utan verslunina veitti honum eftirför og sá hann fara inn í íbúðarhús á svæðinu. Þar fann lögreglan á Suðurnesjum hann, svo og matvælin sem hann hafði stolið, samtals að verðmæti á fimmta þúsund krónur. Viðkomandi hefur komið við sögu lögreglu áður.