Nýjast á Local Suðurnes

Kvartað undan aðstæðum við hringtorgsframkvæmdir

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Töluvert var um að kvatanir bærust Vegagerðinni vegna merkinga við framkvæmdasvæði við ný hringtorg við gatnamót Reykjanesbrautar og Aðalgötu annars vegar og Reykjanesbrautar og Flugvallavegar hins vegar. Þetta staðfesti Svanur G. Bjarnason, svæðisstjóri Suðursvæðis hjá Vegagerðinni í svari við fyrirspurn Suðurnes.net.

Svanur sagði þó að dregið hafi úr kvörtunum eftir því sem liðið hafi á framkvæmdatímann. Blaðamaður Suðurnes.net kannaði aðstæður á svæðinu um miðnætti á sunnudag en þá var töluverð umferð á um framkvæmdasvæðið, sem gekk mjög hægt. Á þeirri tæpu klukkustund sem blaðamaður var á svæðinu var nokkuð um að ferðamenn á reiðhjólum lentu í vandræðum þar sem þeim reyndist erfitt að komast leiðar sinnar vegna mikillar umferðar og lélegrar lýsingar. Þá var einnig nokkuð um að ökumenn tækju vinstri beygju frá Flugvallavegi inn á Reykjanesbraut, sem er óheimilt, og sköpuðu þannig hættu.

Hringtorgin eru hönnuð sem tvöföld hringtorg og verður ytri hringur fyrst tekinn í notkun og er þá gert ráð fyrir að hægt verði að stækka hringtorgin með innri hring þegar farið verður í tvöföldun Reykjanesbrautar. Verktakafyrirtækið Ístak sér um framkvæmdir við hringtorgin tvö og eru áætluð verklok þann 15. september næstkomandi.