Keflavík og Grindavík töpuðu

Afleit byrjun Grindavíkinga gegn Stjörnunni í Dominos-deild karla í körfuknattleik gerði útslagið þegar liðið tapaði með 10 stiga mun, 88-78. Grindvíkingar skoruðu aðeins átta stig í fyrsta leikhluta, en náðu sér á strik þegar líða tók á leikinn, en það dugði ekki til.
Rashad Whack skoraði 29 stig fyrir Grindavík, Ingvi Þór Guðmundsson 19 og Ólafur Ólafsson 14.
Keflvíkingar voru langt frá sínu besta þegar þeir tóku á móti KR-ingum í TM-höllinni í kvöld. Liðið tapaði 85-102, en Keflvíkingar halda þó öðru sæti deildarinnar um sinn.
Stanley Earl Robinson kom vel út hjá Keflvíkingu, en hann var þeirra stigahæstur með 17 stig, en auk þess tók hann 9 fráköst, Guðmundur Jónsson og Ragnar Örn Bragason komu næstir með 14 stig hvor.
Ekkert stig skilaði sér því til Suðurnesja í 8. umferðinni, en Njarðvíkingar töpuðu fyrr í dag gegn Haukum.