Nýjast á Local Suðurnes

Gætu hitað upp 18.000 fermetra gróðurhús með afgangsvarma frá Kölku

Mögulegt væri að nýta afgangsvarma frá endurvinnslustöð Kölku í Helguvík til að hita upp 18.000 fermetra gróðurhús, en nýtanlegur afgangsvarmi frá Kölku er 4,5 MW, samkvæmt samkvæmt útreikningum ráðgjafa frá bandaríska háskólanum Cornell. Þegar Kalka var byggð var í samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja tekin í notkun túrbína til framleiðslu raforku með afgangsvarma frá brennslustöðinni. Þessi raforkuframleiðsla var reynd um nokkra ára skeið en var að lokum hætt af ýmsum tæknilegum ástæðum.

Undanfarna mánuði hefur fyrirtækið GRP ehf. unnið að gerð físileikakönnunar um möguleika á hagnýtingu afgangsvarmans frá brennslustöðinni Kölku og liggur nú fyrir skýrsla um verkefnið. Í skýrslunni kemur fram að varmaaflið og flæði fæðisvatnsins frá Kölku sé of breytilegt til að keyra þá túrbínu sem upphaflega var hugsuð fyrir afgangsvarmann.

Þá kemur fram í skýrsunni að Sorpeyðingastöð Suðurnesja hafi greitt um 11.5 milljónir í rafmagnskostnað á síðasta ári og að mögulegar tekjur fyrirtækisins á ársgrundvelli með nýtingu afgangsvarmans gætu numið um 40 milljónum króna.

Í reglugerðum er kveðið á um að öll varmaorka sem myndast við brennslu úrgangs skuli endurheimt eftir því sem við verður komið.