Nýjast á Local Suðurnes

Guðlaugur og Eysteinn þjálfa Keflavík í Inkasso-deildinni

Keflvíkingar hafa ráðið Guðlaug Baldursson í þjálfarastöðu meistaraflokks karla í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Guðlaugur hefur undanfarin fimm ár verið aðstoðarþjálfari hjá Íslandsmeisturum FH ásamt því að stýra afreksþjálfun hjá Hafnarfjarðarliðinu.

Árin 2005-2006 þjálfaði Guðlaugur meistaraflokk karla hjá ÍBV og árin 2008-2011 var hann við stjórnina hjá liði ÍR.

Knattspyrnudeild Keflavíkur fagnar komu Guðlaugs og telur hann henta afar vel í það verkefni sem framundan er við að koma Keflavík aftur í fremstu röð. Reynsla og þekking Guðlaugs mun ennfremur nýtast gríðarlega vel í þeirri stefnumótun sem félagið hefur sett af stað undir forystu Margrétar Sanders hjá Strategíu. Segir í tilkynningu frá Knattspyrnudeild Keflavíkur.

Guðlaugi til aðstoðar verður Eysteinn Húni Hauksson sem kom til starfa hjá knattspyrnudeildinni síðastliðið haust og þekkir afar vel til félagsins sem fyrrum leikmaður og aðstoðarþjálfari.