Telja umfang fjársvika vera 605 milljónir króna

Í skýrslu sem byggir á skoðun KPMG á gögnum úr bókhaldi United Silicon og upplýsingum sem stjórnendur og endurskoðendur veittu KPMG við skoðunina kemur fram að talið sé að fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður félagsins, Magnús Garðarson hafi dregið sér fé upp á 4,8 milljónir evra, eða 605 milljónir króna á núverandi gengi.
Í skýrslunni er meint fjármálamisferli Magnúsar rakið ítarlega, en United Silicon kærði hann til héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014. Kjarninn fjallar ítarlega um þetta mál og þær aðferðir sem talið er að notaðar hafi verið við hinn meinta fjárdrátt á vef sínum í dag.