Nýjast á Local Suðurnes

Stefnt á að endurvinna ál í Helguvík

Reykjanesbær og bandaríska fyrirtækið Almex USA Inc., í gegnum íslenskt dótturfélag, hafa náð samkomulagi um að skoða möguleika þess að setja upp endurvinnslu á áli í Helguvík. Bæjarráð Reykjanesbæjar lagði samþykki sitt á verkefnið á fundi í morgun. 

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir að áætluð ársframleiðsla sé 45 þúsund tonn í fyrsta áfanga. Reiknað er með starfsmenn verði um 60 þegar fullum afköstum verði náð. „Reykjanesbær horfir jafnframt til að þess að afleidd tækifæri af slíkri starfsemi geti styrkt atvinnuþróun á svæðinu.  

Almex USA sérhæfir sig í framleiðslu á búnaði fyrir úrvinnslu og endurvinnslu á áli ásamt fjárfestingum í skyldum iðnaði. Félagið er sagt standa framarlega á sviði endurvinnslu léttmálma „og með sérstöðu hvað varðar framleiðslu á áli fyrir geimferða- og flugvélaiðnaðinn“. 

„Verkefnið er í samræmi við þá stefnu Reykjanesbæjar að í Helguvík byggist upp iðnaður sem hafi jákvæð áhrif á umhverfið og samfélagið. Markmið Reykjanesbæjar er að efla Helguvík sem iðnaðarsvæði sem styður við þá stefnu og hringrásarhagkerfið,“ segir í tilkynningu.