Nýjast á Local Suðurnes

Minnihluti vill hafa frítt í strætó – Tekjur duga varla fyrir gjaldtökukerfi

Minnihluti Sjáfstæðis- og Framsónarflokks í bæarráði Reykjanesbæjar vill halda áfram að veita þjónustu strætó í sveitarfélaginu endurgjaldslaust, en til stendur að hefja gjaldtöku í haust.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs mætti á fund bæjarráðs og gerði grein fyrir tillögu um gjaldtöku almenningsvagna. Tillagan var samþykkt með 3 atkvæðum meirihluta. Þar sem minnihlutinn hefur lagst gegn gjaldtöku í almenningsvögnum, situr hann hjá við útfærslu að gjaldtöku, segir í fundargerð.

Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagði í samtali við Suðurnes.net að það væri umferðaröryggismál að hafa frítt í strætó fyrir börn auk þess sem tekjurnar mættu varla kostnaði við uppsetningu á gjaldtökukerfi.

“Við höfum alltaf sagt að það sé umferðaröryggismál að hafa frítt í strætó fyrir börn í Reykjanesbæ og hvetja þannig börn til að nota strætó frekar en að vinna gegn því.” Sagði Böðvar um afstöðu minnihlutans.

“Það er talað um að árskort fyrir 6-16 ára komi til með að kosta 2.000 krónur á ári. Það gætu verið tekjur upp á ca. 4 milljónir miðað við að flest börn kaupi kort. Varla til að mæta kostnaði við uppsetningu á gjaldtökukerfinu.” Sagði Böðvar.

Reykjanesbær stóð nýlega fyrir útboði á almenningssamgöngum í sveitarfélaginu og var lægsta tilboði í verkefnið tekið, en það hljóðaði upp á um 130 milljónir króna.