Nýjast á Local Suðurnes

Umdeild fyrirsögn – “Hér er níðst á ungum manni, sem býður sig fram til opinbers starfs “

Blaðamaðurinn Karl Th. Birgisson gerir frétt Vísis.is af framboði Ísaks Ernis Kristinssonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins að umtalsefni í nýjum pistli sem birtur var á vefmiðlinum Herðubreið fyrr í dag. Er það skoðun Karls Th. að blaðamaður Vísis, Nanna Elísa Jakobsdóttir geri grín af reynslu Ísaks Ernis í fyrirsögn fréttarinnar og bjóði upp á að gert sé grín af stjórnmálamanninum unga í kommentakerfi Vísis, en Ísak Ernir er 23ja ára gamall og hefur tekið þátt í stjórnmálum frá 16 ára aldri.

“Í þessu tilviki eru mistökin stór í smáu samhengi. Hér er níðst á ungum manni, sem býður sig fram til opinbers starfs, en ástæðan fyrir ofbeldinu er hvergi sjáanleg. Nema hugsanlega að á ritstjórninni hafi þótt fyndið að gera grín að ungum sjálfstæðismanni úr Keflavík. Eru þeir ekki allir glataðir hvort eð er, eins og dæmin sanna?” Segir meðal annars í grein Karls Th.

Nanna Elísa svarar þessum vangaveltum Karls Th., fullum hálsi, í hópnum Fjölmiðlanördar á Facebook, en þar er að finna líflegar umræður um málið – Nanna Elísa vísar því á bug að verið sé að gera lítið úr reynslu Ísaks Ernis, sem hún segir reyndan miðað við aldur.

“Ég sem blaðamaður taldi 23 ára mann með 7 ára reynslu af störfum í Sjálfstæðisflokknum bara vera þokkalega reyndan. Mjög hallærislegt að ætla að gera mér það upp að vera að gera grín að honum.” Segir Nanna Elísa í umræðunum á Facebook, sem er að finna hér fyrir neðan.