Nýjast á Local Suðurnes

Gustað um Base parking frá upphafi

Mynd: Skjáskot Fréttablaðið

Bílatæðaþjónustan Base parking hóf að veita þjónustu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) um mitt ár 2017, en þjónustan virkar þannig að starfsfólk fyrirtækisins sækir bíla viðskiptavina, gegn greiðslu, við FLE og skilar þeim á sama stað að ferðalagi loknu. Óhætt er að segja að gustað hafi um starfsemina nánast frá upphafi og hafa fjölmörg mál er varða fyrirtækið ratað á síður fjölmiðla.

Strax á fyrsta starfsári lögðu forsvarsmenn Base Parking inn kvörtun til samkeppniseftirlitsins vegna framkomu Isavia, rekstraraðila FLE í þeirra garð, en ríkisfyrirtækiið hafði meðal annars lagt sektir á fyrirtækið fyrir að nota skammtímastæði við flugstöðina undir starfsemi sína auk þess að bjóða upp á sömu þjónustu og BaseParking geri.

Áfram héldu deilur fyrirtækjanna tveggja og var lögregla meðal annars kölluð til þegar starfsmenn Isavia hleyptu starfsmönnum BaseParking ekki út af bílastæðum fyrirtækisins á Keflavíkurflugvelli með bíla viðskiptavina fyrirtækisins. Það mál endaði með því að starfsmaður Isavia kærði starfsmann bílastæðaþjónustu BaseParking til lögreglu vegna hótana um líkamsmeiðingar.

Í kjölfarið krafðist Isavia þess að Base parking greiddi um fimm milljónir króna vegna ítrekaðra brota fyrirtækisins á notkunarreglum Isavia á skammtímastæðum við Keflavíkurflugvöll, en fyrirtækið hafði þá lagt yfir 70 bifreiðum á skammtímabílastæðum án þess að greiða fyrir notkun þeirra og að sumar hafið staðið þar vikum saman.

Þá hafa af og til komið upp ásakanir á hendur starfsmanna fyrirtækisins um slæma meðferð á bílum viðskiptavina, en árið 2019 var greint frá slíkum málum í ítarlegri umfjöllun Frétta­blaðsins sem hafði undir höndum mynd­bönd sem sýndu starfs­menn fyrir­tækisins keyra bílunum af miklu gá­leysi. Á mynd­böndunum sjást starfsmennirnir meðal annars aka glannalega, keyra á sjálf­stýrðum bíl án öku­manns og spóla á malar­vegi. 

Enn eru mál tengd fyrirtækinu að rata í fjölmiðla, en netmiðillinn Vísir.is hefur undanfarið greint frá ýmsum málum sem tengjast óánægðum viðskiptavinum og grun um slæma meðferð á starfsfólki. Nýlega fjallaði miðillinn um óvönduð vinnubrögð fyrirtækisins þegar viðskiptavinur fyrirtækisins beið ásamt fjölskyldu sinni í klukkutíma á Keflavíkurflugvelli eftir bílnum sínum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náði hann engu sambandi við fyrirtækið um afhendingu bílsins. Þá vakti frétt miðilsins um að starfsmaður fyrirtækisins hafi ekki bifreið viðskiptavinar á 170 kílómetra hraða mikla athygli, en það atvik náðist á myndband, sem sjá má hér.

Verkalýðsfélag Keflavíkur og nágrennis segir áhyggjur hafa verið uppi um starfsemi bílastæðaþjónustunnar Base Parking á Keflavíkurflugvelli í fjöldamörg ár. Grunur er um að brotið sé á réttindum starfsmanna og að þeir fái greitt undir borðið.

„Við höfum fengið mikið af kvörtunum frá félagsmönnum, bæði vegna vangreiddra launa, skattur hefur ekki verið að skila sér, félags-og lífeyrissjóðsgjöld hafa ekki verið að skila sér. Eftirlitið hefur farið á staðinn og aðbúnaði starfsmanna er verulega ábótavant. Það er ekki starfsmannaaðstaða og starfsmenn hafa ekki almenninlegan stað til að nærast og fara á klósett.” segir formaður verkalýðsfélagsins í samtali við Vísi.is.

Formaðurinn segir starfsmannahóp fyrirtækisins mestmegnis samanstanda af ungu fólki og útlendingum sem þekki mögulega ekki réttindi sín.

Fyrirtækið hefur þó einnig látið gott af sér leiða í gegnum tíðina, en samið var við Félag eldri borgara um að félagsmenn fái afslátt af bílastæðaþjónustu fyrirtækisins við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, auk þess sem eldri borgarar fá afslátt á bílaþrifum. Þá bauðst félagasamtökum á Suðurnesjum að nýta starfsfólk fyrirtækisins til góðra verka í Covidfaraldrinum, þegar lítið sem ekkert flug var til og frá landinu.