Nýjast á Local Suðurnes

Geyma spilliefni í 150 metra fjarlægð frá íbúabyggð

Sorpeyðingastöð Suðurnesja gerði á síðasta ári samning við norska fyrirtækið NOAH um förgun á flugösku sem fellur til við brennslu í endurvinnslustöð fyrirtækisins, Kölku í Helguvík.

Flugöskunni er eytt einu sinni á ári í Noregi, en um eitt þúsund tonn verða til af öskunni við brennslu í Kölku á ári hverju, og áður en efnið er flutt til Noregs til eyðingar er það geymt í húsnæði fyrirtækisins við Fitjabraut í Njarðvík sem er staðsett í um 150 metra fjarlægð frá íbúabyggð. Þá herma heimildir Suðurnes.net að húsnæðið í Njarðvík sé of lítið fyrir geymslu svo mikils magns af efninu og að fyrirtækið hafi á leigu húsnæði í Garði, sem er í svipaðri fjarlægð frá íbúabyggð og húsnæðið í Njarðvík.

Flugaska er skilgreind sem spilliefni hér á landi, en um er að ræða fíngert ryk sem verður til í hreinsivirkjum sorpbrennslustöðvarinnar og getur verið afar hættulegt við innöndun.

Uppfært 25.09: Skv. upplýsingum frá Kölku er flugaska ekki geymd í Garði lengur, heldur aðeins geymd í geymsluhúsnæði fyrirtækisins í Njarðvík. Þá verða um 400 tonn til af öskunni á ári við brennslu í Kölku og er askan send erlendis til förgunar á þriggja ára fresti, því eru í mesta lagi geymd um 1200 tonn í geymslum fyrirtækisins.