Nýjast á Local Suðurnes

Garði gert að greiða miskabætur vegna brots við ráðningu í stöðu skólastjóra

Sveitarfélagið Garður hefur verið dæmt, í Héraðsdómi Reykjaness, til að greiða Birni Vilhelmssyni miskabætur að upphæð 500.000 krónur vegna brots við ráðningu í stöðu skólastjóra. Björn var einn af umsækjendum um starfið en Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að tengsl hans við pólitík hafi haft úrslitaáhrif á að hann var ekki metinn hæfur umsækjandi.

Þá sóttist Björn, sem starfar enn sem kennari við skólann, eftir því að fá greidd biðlaun að upphæð kr. 4.961.064 eftir að hafa verið sagt upp 50% starfi deildarstjóra við skólann, vegna hagræðingaraðgerða en þá kröfu féllst Héraðsdómur ekki á.

Sveitarfélagið þarf því að greiða Birni 500.000 krónur í miskabætur auk þess sem 800.000 króna málskostnaður Björns fellur á sveitarfélagið samkvæmt dómi Héraðsdóms.