Fundu á annað hundrað kannabisplöntur

Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði í fyrradag kannabisræktun í íbúðarhúsnæði. Ræktunin var í tveimur tjöldum í svefnherbergjum, á annað hundrað plöntur samtals.
Í öðru húsnæði, sem lögregla gerði einnig húsleit í að fenginni heimild, fundust svo fáeinar plöntur til viðbótar. Sami einstaklingurinn stóð fyrir ræktuninni á báðum stöðum. Lögregla fjarlægði bæði plöntur og ræktunartól til eyðingar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni, sem segir enn fremur að þetta sé í annað sinn á skömmum tíma sem lögregla stöðvar umfangsmikla kannabisræktun í umdæminu.