Nýjast á Local Suðurnes

Átta fulltrúar frá Reykjanesbæ heimsækja vinabæ – “Fjáraustur og vel væri hægt að koma kostnaðinum niður”

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum þann 31. janúar síðastliðinn að stjórnendur sveitarfélagsins leggi land undir fót og fari í kynnisferð til vinabæjarins Kristiansand. Átta fulltrúar Reykjanesbæjar munu fara í ferðina.

Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn telur að óþarft sé að senda þetta marga fulltrú í ferðina og lagði fram bókun þess efnis á fundi bæjarstjórnar. Þar bendir bæjarfulltrúinn á að sýna verði ráðdeild í rekstri sveitarfélagsins og bendir einnig á að dagpeningar séu greiddir í ferðum sem þessum eð tilheyrandi kostnaði fyrir sveitarfélagið.

Bókun Miðflokksins í heild sinni:

“Það er hreint með ólíkindum að senda þurfi átta embættismenn bæjarins til þess að kynna sér þessi mál. Þetta er fjáraustur úr bæjarsjóði og vel væri hægt að koma kostnaðinum niður í 750.000 kr. færu einungis þrír aðila. Sýna verður ráðdeild á öllum sviðum í rekstri bæjarins og eru utanferðir embættismanna og kjörinna fulltrúa einn partur af því. Minna má á að dagpeningar eru greiddir í svona ferðum og eru þeir skattfrjálsir og mál líta á þá sem kaupauka viðkomandi embættismanna.“

Vinabæir Reykjanesbæjar eru sjö talsins, Kerava í Finnlandi, Trollhättan í Svíðþjóð, Midvangs Kommuna í Færeyjum, Kristiansand í Noregi, Orlando í Florida og tvö héruð í Kína, Henan og Xianyang. Nær engin samskipti verið á milli Reykjanesbæjar og Orlando í Florida og óvíst hvernig samskipti sveitarfélagsins við kínversku héruðin muni þróast, en stofnað var til tengsla við þau árin 2012 og 2014, en fulltrúar þess síðarnefnda hafa heimsótt Reykjanesbæ.

Sex fulltrúar frá Reykjanesbæ heimsóttu Trollhättan í Svíþjóð árið 2016, en þáðu ekki laun á meðan á ferðalaginu stóð. Þeir voru viðstaddir hátíðarhöld í tilefni af aldarafmæli bæjarins, en á sama tíma var haldið vinabæjamót og vinnufundir. Reykjanesbær greiddi fyrir flug, bílaleigubíla og útlagðan kostnað fyrir sexmenningana sem var um ein milljón króna.