Nýjast á Local Suðurnes

Aldraðir í Reykjanesbæ fá ekki frekari afslátt af fasteignagjöldum

Bæjarráð Reykjanesbæjar mun ekki lækka fasteignagjöld til eldri borgara frekar en gert hefur verið, en ráðið tók fyrir áskorun frá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum á síðasta fundi sínum.

Áskorun þess efnis að bæjarstjórnir sveitarfélaganna á Suðurnesjum lækkuðu álagningaprósentu á fasteignagjöldum hjá eldri borgurum, svo ekki komi til óeðlilegrar hækkunar á íbúðahúsnæði eldri borgara, var samþykkt af stjórn Félags eldri borgara á Suðurnesjum þann 23. ágúst síðastliðinn, í kjölfar hækkunar á fasteignamati, sem tók gildi í júní síðastliðnum, en meðaltalshækkun á Suðurnesjum er um 14%.

Bæjarráð bendir á að aldraðir í Reykjanesbæ njóti afsláttar af fasteignagjöldum og var afslátturinn aukinn á liðnu ári. Afsláttur af fasteignasköttum til elli- örorkulífeyrisþega hjá Reykjanesbæ er tekjutengdur og getur numið frá 20-100%, í fjórum þrepum.