Vill einkavæðingu: “Engin ástæða fyrir hið opinbera að eiga og reka alþjóðaflugvöll”

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir að treysta einkaaðilum til rekstur alþjóðaflugvallarins á Keflavíkurflugvelli og að sjá eigi til þess að ríkið sinni aðeins þeim verkefnum sem nauðsynlegt er að ríkið sinni.
Þetta segir þingmaðurinn í aðsendri grein sem birt var í Morgunblaðinu og á vef Sjálfstæðisflokksins. Í grein sinni bendir Áslaug Arna á að margir af stærstu flugvöllum Evrópu séu í eigu einkaaðila auk þess sem hún telur upp nokkrar ástæður þess að ríkið eigi ekki að taka þátt í atvinnustarfssemi af þessu tagi. Þá segir hún ríkið ekki hagnast á rekstri flugvalla.
“Á Keflavíkurflugvelli eru fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir tugi milljarða á næstu árum og allt er það á ábyrgð skattgreiðenda. Það er ekki áhættulaust að reka flugvöll. Flugvellir þurfa að standast nútímakröfur um þægindi og öryggi, þeir þurfa að mæta vexti í flugumferð og ferðaþjónustu og stunda öfluga markaðsstarfsemi í þeim tilgangi að laða að sér viðskiptavini. Allt er þetta eitthvað sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna.”
“Það er í raun engin ástæða fyrir hið opinbera að eiga og reka alþjóðaflugvöll. Einhver kynni að halda því fram að rekstur flugvallar færði ríkinu tekjur, en svo er ekki.” Segir Áslaug Arna meðal annars í greininni sem finna má í heild sinni hér.