Nýjast á Local Suðurnes

Vilja setja uppbyggingu á gervigrasvelli í forgang

Fulltrúar Bæjarlistans og Samfylkingar í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hvetja meirihlutann í sveitarfélaginu til að hraða vinnsluferli vegna byggingar á gervigrasvelli og setja málið í forgang. Málið hefur, samkvæmt bókun fulltrúa Bæjarlistans, tafist vegna sumarfría. Fulltrúar Samfylkingarinnar höfðu áður lagt fram svipaða bókun í bæjarráði.

Bókunin í heild:

Bæjarlistinn leggur áherslu á hröð og markviss vinnubrögð í uppbyggingu á gervigrasvelli. Vinnsluferill málsins var lagður fyrir í bæjarráði þann 20.6.2022 þar sem tekið var fram að ekki væri hægt að tímasetja hann nákvæmlega vegna sumarfría starfsmanna en gert ráð fyrir að honum væri lokið í september. Nú er einungis einum lið af fimm lokið af vinnsluferlinu og hefur Bæjarlistinn áhyggjur af því að þessar tafir leiði til þess að ekki verið komin ákvörðun um verkið þegar fjárhagsáætlunarvinna hefst og því muni framkvæmdir tefjast enn frekar.
Bæjarlistinn hvetur meirihlutann til að hraða vinnsluferlinu og setja málið í forgang.