Milljarða verkefni vegna komu bandaríska hersins hefjast í haust

Nýtt fjárhagsár Bandaríska ríkisins hefst 1. október næstkomandi og má gera ráð fyrir að verkefni á vegum bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli hefjist því formlega eftir þann dag. Þetta kemur fram í svari Utanríkisráðuneytsins við fyrirspurn Suðurnes.net.
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna gerir ráð fyrir að kostnaður við breytingar á flugskýlum á Keflavíkurflugvelli, vegna komu P-8 flugvéla til landsins, muni nema tæplega þremur milljörðum króna. Þar af er gert er ráð fyrir að um 650 milljónir króna fari í að koma upp nauðsynlegri hreinsiaðstöðu og um 200 milljónir í skipulags- og hönnunarvinnu.
Þá kemur fram í svari ráðuneytisins að viðræður á milli aðila séu í undirbúningi og verða þá lagðar línur að verkáætlun og fyrirkomulag varðandi framkvæmdina. Bandaríski herinn hefur sem kunnugt er tekið þátt í loftrýmisgæslu við landið á vegum NATO og hafa allt að 200 hermenn dvalið hér á landi til skemmri tíma á meðan á þeim aðgerðum hefur staðið.