Þrefalt fleiri lendingar á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag
Von er á 40 flugvélum til lendingar á Keflavíkurflugvelli á aðfangadag. Þetta er 60% aukning frá því í fyrra þegar 25 flugvélar lentu á vellinum og ríflega þreföldun frá árinu 2014 þegar 13 vélar lentu á vellinum á aðfangadag.
Þetta kemur fram á vef mbl.is en þar segir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, að bjartsýnustu spár geri ráð fyrir 40% aukningu á komu erlendra ferðamanna hingað til lands í desembermánuði í ár. 71 þúsund ferðamenn komu til landsins í desember í fyrra og 54 þúsund í sama mánuði árið þar áður. Í ár gæti talan orðið 100 þúsund.