Nýjast á Local Suðurnes

Takmörkun á starfsemi og þjónustu Suðurnesjabæjar vegna COVID-19

Þar sem lýst hefur verið yfir neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 veirunnar, hefur Suðurnesjabær tekið ákvörðun um að takmarka starfsemi sína og þjónustu.  Á grundvelli leiðbeininga landlæknisembættisins vinnur Suðurnesjabær að því að tryggja sem best öryggi í þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma. Suðunesjabær vinnur eftir viðbragðsáætlun við þessar aðstæður, m.a. með sérstaka áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir.

  • Félagsstarf aldraðra og öryrkja í Auðarstofu í Garði og í Miðhúsum í Sandgerði liggur niðri frá og  með 9. mars 2020.  Allir hlutaðeigandi verða látnir vita um leið og hægt verður að hefja starfsemi að nýju.
  • Þjónusta skammtímavistunar í Heiðarholti verður skert.

Önnur þjónusta á vegum fjölskyldusviðs verður óbreytt, með fyrirvara um frekari leiðbeiningar og fyrirmæli landlæknisembættisins.  Haft verður samband við þá sem njóta heimaþjónustu, fá heimsendan mat eða njóta annarrar þjónustu og aðilar upplýstir um fyrirkomulag þjónustunnar.

Ítrekað er að Embætti landlæknis beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.