Nýjast á Local Suðurnes

Nýta traust á Víkurfréttum við að dreifa falsfréttum um skjótfenginn gróða

Undanfarin misseri hafa birst auglýsingar á samfélagsmiðlum um gylliboð á netinu, þar með talið falskar atvinnuauglýsingar, loforð um skjótfenginn gróða, óvæntan arf, lottóvinning og þessháttar og eru þessar auglýsingar jafnan mjög sannfærandi útlits, jafnvel á vandaðri íslensku, og á vefsíðum sem herma eftir útliti þekktra íslenskra miðla.

Þannig hafa undanfarið skotið upp kollinum auglýsingar þar sem virðist vera um að ræða umfjöllun á hinum mjög svo traustvekjandi vef útgefanda stærsta héraðsfréttamiðils landsins, Víkurfrétta, vf.is. Ólíklegt verður þó að teljast að auglýsingarnar séu á vegum hins virta héraðsfréttamiðils hvar útgáfan hefur verið í blómstra undanfarið enda birtist fölsuð útgáfa af vef annara íslenskra fjölmiðla, Vísis og Viðskiptablaðsins, þegar smellt er á auglýsingarnar.

Í mörgum slíkum falsfréttum er fjallað um hvernig viðkomandi einstaklingur græddi fúlgur fjár með auðveldum hætti. Falsfréttum fylgja gjarnan myndir af einstaklingnum sem teknar hafa verið af netinu auk þess sem notast er við vinsæl og traustvekjandi lén.