Nýjast á Local Suðurnes

Lítið komið frá rekstraraðilum Danskompaní vegna umferðaröryggismála

Lítið hefur verið gert varðandi öryggi gangandi vegfarenda við dansskóla Danskompaní við Brekkustíg að mati foreldra nemenda við skólann, en umræður sköpuðust um málið á dögunum í lokuðum hópi íbúa Reykjanesbæjar á Facebook, Reykjanesbaer – Gerum góðan bæ betri. Slík umræða hefur reglulega komið upp á samfélagsmiðlum undanfarin ár.

Málshefjandi segir litlu hafa mátt muna að dóttir hennar hafi orðið fyrir bíl sem kom á töluvert mikilli ferð um göturna og spyr hvort alvarlegt slys þurfi til svo eitthvað verði gert í málunum. Flestir sem taka þátt í umræðum á þræðinum eru á sama máli á meðan aðrir benda á mögulegar lausnir.

Umferðaröryggismál á þessu svæði hafa lengi verið í vinnslu hjá bæjaryfirvöldum, en sjá má í fundargerðum Reykjanesbæjar að unnið hafi verið í þessum málum undanfarin þrjú ár með litlum árangri.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, framkvæmdastjóri umhverfi- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að búið sé að bæta götulýsingu á svæðinu auk þess sem “einhverjar” merkingar hafi verið settar upp. Þá segir Guðlaugur Helgi að kallað hafi verið eftir tillögum frá rekstraraðila en lítið hafi komið frá þeim.