Nýjast á Local Suðurnes

Leggja til að leikskólagjöld verði tekjutengd

Fulltrúi Umbótar, sem situr í minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, hefur lagt fram hugmyndir varðandi lækkun kostnaðar eða aukningu tekna hjá sveitarfélaginu. Hugmyndir flokksins snúa að leik- og grunnskólum, en meðal annars er lagt til að skoðaður sé möguleiki á að tekjutengja leikskólagjöld.

Umbót lagði fram bókun þessa efnis í tengslum við umræður um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar á fundi bæjarstjórnar. Bókunina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

„Umbót langar að leggja fram nokkrar hugmyndir er snúa að lækkun kostnaðar eða aukningu tekna Reykjanesbæjar.

Við myndum gjarnan vilja skoða þá hugmynd frekar sem hefur komið áður fram um að tekjutengja leikskólagjöld. Þannig væru þeir sem hafa hvað hæst laun að greiða t.d. 4-6 þúsund krónum meira en þeir sem eru með hvað lægst laun. Hægt væri að hafa viðmiðið við t.d. 1 m.kr. eða nota önnur viðmið er hentugri væru. Þetta fyrirkomulag tíðkast víða á Norðurlöndum.

Umbót leggur einnig til að tvisvar á ári sé send valkvæð krafa í heimabanka hjá foreldrum grunnskólabarna fyrir ritfangagjald. Það er ekki lögbundin krafa sveitarfélags að útvega ritföng en vissulega er fyrirkomulagið mun þægilegra fyrir bæði foreldra, kennara og börn. Upphæðin þarf ekki að vera há og þær kröfur sem ekki eru greiddar falli sjálfkrafa niður eftir 45 daga. Kæmi þetta á móti kostnaði skólanna við kaup á ritföngum sem bærinn greiðir nú þegar.“