Kanna aðstæður á lagningu nýs sæstrengs frá Grindavík til Írlands

Fjarskiptasjóður og Farice ehf. undirrituðu í síðasta mánuði þjónustusamning vegna ársins 2019, en félagið á og rekur fjarskiptasæstrengina FARICE-1 og DANICE sem tengja Ísland við Evrópu.
Með samningnum tekur Farice meðal annars að sér undirbúning og framkvæmd botnrannsókna sem eru nauðsynlegur þáttur í undirbúningi lagningar á nýjum fjarskipta-sæstreng milli Íslands og Evrópu.
Rannsóknir á aðstæðum til að leggja nýjan sæstreng frá Grindavík til Kilalla á vesturströnd Írlands eru þegar hafnar. Iris yrði þriðji sæstrengurinn á milli Íslands og Evrópu.
Vinna við undirbúning verkefnisins er þegar hafin. Gert er ráð fyrir að rannsóknarskip ljúki kortlagningu sjávarbotns síðla sumars með það fyrir augum að heildstæð niðurstaða rannsóknarinnar liggi fyrir fljótlega í kjölfarið.
Vinna sérfræðinga Farice felst meðal annars í því að leita eftir, meta og nýta eftir atvikum fyrirliggjandi upplýsingar og gögn sem flýtt geta framkvæmd verkefnisins og stuðlað að hagkvæmni. Í tilkynningu á vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um næstu skref að botnrannsóknum loknum.