Nýjast á Local Suðurnes

Höfðu afskipti af ellefu manns vegna ólöglegrar atvinnustarfsemi

Lögreglan á Suðurnesjum hefur undanfarið haft afskipti af ellefu manns eftir að heimsótt voru nítján fyrirtæki á svæðinu vegna yfirstandandi átaksverkefnis vegna ólöglegrar atvinnustarfsemi. Þar var um að ræða atvinnurekendur svo og fólk sem var við störf hjá þeim, án atvinnuleyfis.

Að umræddu verkefni komu Lögreglan á Suðurnesjum, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Útlendingastofnun, Ríkisskattstjóri og Vinnumálastofnun. Alls voru 19 staðir eða fyrirtæki heimsótt á Suðurnesjum vegna verkefnisins og rætt var við 58 starfsmenn sem voru þar við störf. Um var að ræða starfsmenn sem starfa við þrif og í byggingageiranum.

Átaksverkefninu verður fram haldið með fyrirvaralausum heimsóknum á vinnustaði. Fólk er hvatt til að hafa samband og tilkynna ef það hefur grun um staði eða fyrirtæki þar sem ólögleg atvinnustarfsemi fer fram.