Nýjast á Local Suðurnes

Hvarfakútar hverfa undan bílum í Njarðvík – Lögregla óskar eftir upplýsingum

Hvarfakútum hefur verið stolið undan sjö bifreiðum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum að undanförnu. Þetta er mikið tjón fyrir þá bíleigendur sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum óprúttnu aðilum því nýr hvarfakútur kostar um 200 þúsund krónur.

Allir bílarnir sem kútarnir voru sagaðir undan stóðu í Njarðvík, tveir hjá Heklu bílaumboði, einn hjá Nýsprautun og fjórir hjá KG bílum. Fyrri þjófnaðurinn átti sér stað um miðjan síðasta mánuð þegar hvarfakútar voru sagaðir undan þremur bifreiðum og sá síðari var tilkynntur til lögreglu nú í vikunni þegar kútar voru sagaðir undan fjórum til viðbótar.

Þeir sem búa yfir upplýsingum um þessi mál eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 4442200.