Ásmundur um endurgreiðslur vegna aksturs: “Er allavega kandídat í þetta”
Aðspurður hvort hann sé sá þingmaður sem fékk mestan aksturskostnað endurgreiddan fyrir síðasta ár, eða 4,6 milljónir króna, segist Ásmundur Friðriksson vera kandídat í það.
„Það er ekki gefin út nein keppnisskýrsla í þinginu um þetta og ég hef ekki fengið medalíu, en ég er allavega kandídat í þetta,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.
Ásmundur bendir á hann hafi stóru kjördæmi að sinna og þetta sé því fljótt að koma. „Svo keyri ég auðvitað í vinnuna á hverjum degi, það eru yfir 100 kílómetrar. Það eru 500 kílómetrar á viku og 2.000 kílómetrar á mánuði bara í vinnuna, þannig þetta er fljótt að koma,“ segir Ásmundur sem býr sem kunnugt er í Reykjanesbæ.
Þá segir Ásmundur alla sem vilja geta fylgst með ferðalögum hans um kjördæmið, en hann hefur skrifað um allar ferðir sínar á Facebook síðan hann var kjörinn á þing árið 2013.
„Ég hef skrifað um nánast hverja einustu ferð á Facebook frá því ég fór á þing árið 2013. Ég tek myndir og segi frá því sem ég geri.“
Suðurnes.net tók til gamans saman kostnað við eina viku á ferðalögum Ásmundar um kjördæmið á síðasta ári og notaðist við Facebook-færslur hans við samantektina. Í þeirri viku, sem var frekar róleg, ferðaðist Ásmundur um kjördæmið og hitti bændur yfir kaffibolla.