Annir framundan á KEF

Það stefnir í annasamt ár á Keflavíkurflugvelli, gangi farþegaspá Keflavíkurflugvallar (KEF) eftir, en spáin gerir ráð fyrir að alls fari 8,4 milljónir gesta um völlinn á árinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia, en þar segir einnig að í janúar hafi 469.059 gestir farið um flugvöllinn sem er 4% fjölgun frá janúar í fyrra. Alls flugu 17 flugfélög til 65 áfangastaða. Vinsælustu áfangastaðirnir voru London, Kaupmannahöfn, New York, Manchester og París. Mest var að gera á flugvellinum í nýliðnum janúarmánuði 3. janúar þegar 23.110 gestir lögðu leið sína um KEF.
Þá segir að samkvæmt mælingum Ferðamálastofu voru brottfarir Íslendinga í janúarmánuði 48.000. Það gerir 22% fjölgun frá janúar á síðasta ári.
Brottfarir erlendra gesta frá landinu um KEF voru tæplega 121.000, sem gerir 6% fækkun frá janúar í fyrra.
Flestar brottfarir erlendra gesta voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna (27% af heild), þar á eftir komu Bretar (17% af heild), síðan Kínverjar (8%), Þjóðverjar (6%) og þar á eftir fylgdu Frakkar (5%).



















