Nýjast á Local Suðurnes

Stefnt að hafnarframkvæmdum fyrir milljarð í Grindavík

Á bæjarstjórnarfundi 25. Ágúst var lagt fram minnisblað hafnarstjóra þar sem óskað er eftir viðauka við fjárhagsáætlun 2015 að upphæð 4,5 milljónum króna til að standa undir kostnaði við hönnun á endurnýjun viðlegukants við Miðgarð.

Bæjarstjórn samþykkir viðauka við framkvæmdaáætlun Grindavíkurhafnar árið 2015 að fjárhæð 4,5 milljónir sem kemur til lækkunar á handbæru fé. Grindavíkurhöfn er í fjórða sæti yfir mestu aflaverðmæti í landinu og önnur stærsta höfnin á landinu miða við ígildi kvóta.

Áætlað er að aflaverðmætin velti á um tólf milljörðum króna á ári sem er um 10% af heildaraflaverðmætum landsins.

Stefnt er að því að hefja hafnarframkvæmdir í Grindavík fyrir einn milljarð króna á næsta ári. Þar er ráðgert að reisa nýjan Miðgarð. Framkvæmdin gengur út á það að rekið verður niður nýtt stálþil fyrir framan það eldra og höfnin dýpkuð þannig að kanturinn henti þeim flota sem höfnin þjónustar í dag, þetta kemur fram á grindavik.net.