Leggja niður ferðir á milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line Iceland mun hætta að bjóða upp á ferðir á milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar. Síðasta ferðin verður farin föstudaginn 30. september. Ekki verður boðið upp á ferðirnar í vetur. Næstu mánuði verður metið hvort grundvöllur teljist fyrir áframhaldandi ferðum næsta sumar. Þetta kom fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Málið er það að það tekur langan tíma að byggja upp svona leið og kostar mikinn pening. Þetta var ákveðið tilraunarverkefni og við áttum von á því að það kæmu fleiri farþegar. Hvort að þetta verði aftur tekið upp næsta sumar kemur í ljós,“ sagði Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line Iceland, í samtali við mbl.is.