Von á yfir 200 keppendum á EM í bekkpressu sem haldið verður í Reykjanesbæ

Evrópumeistaramótið í bekkpressu verður haldið í Reykjanesbæ helgina 18. – 20. ágúst næstkomandi, um er að ræða langstærstu keppni í kraftlyftingum sem haldin hefur verið á Íslandi, en gert er ráð fyrir ríflega 200 keppendum frá aðildarfélögum Evrópska kraftlyftingasambandsins.
Keppnin fer fram í íþróttamiðstöð Njarðvíkur sem er heimavöllur Massa og líklegast langbesta aðstaða landsins fyrir atburði sem þessa, segir í fréttatilkynningu vegna mótsins.
Í fyrsta skipti verður keppt bæði í opnum og unglingaflokki (19–23 ára) karla og kvenna og er von á mörgum af sterkustu bekkpressurum heims í opnum flokki sem og unglinga.
Mörg af stærstu nöfnunum úr heimi bekkpressunnar ætla að setja mark sitt á þetta næststerkasta bekkpressumót heims á eftir sjálfu heimsmeistaramótinu.