Nýjast á Local Suðurnes

Þrír handteknir vegna gruns um fíkniefnasölu

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum handtekið þrjá einstaklinga vegna gruns um vörslu og sölu fíkniefna. Einn þeirra var handtekinn aðfararnótt sunnudags. Viðkomandi hafði í fórum sínum sex smelluláspoka með hvítu efni. Meintur viðskiptavinur var með hvítt efni í poka innan klæða.

Þá var karlmaður, sem lögregla hafði tal af með átta pakkningar af kannabisefni í vasanum og játaði hann sölu fíkniefna.

Ökumaður sem lögregla tók úr umferð reyndist svo vera með talsvert magn af ætluðu amfetamíni í bifreiðinni, bæði í smelluláspokum og öðrum ílátum. Einnig vog og sölubók. Viðkomandi viðurkenndi dreifingu og sölu fíkniefna.

Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja  til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.