Stefna á byggingu 30.000 fermetra verslunarkjarna í Vogum

Fasteignaþróunarfélagið Íslenskar fasteignir og landeigendur Heiðarlands Vogajarða hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu 30 þúsund fermetra verslunar- og þjónustukjarna í Vogum.
Frá þessu er greint á vef mbl.is, en þar segir að verslunar- og þjónustukjarninn yrði við gatnamót Reykjanesbrautar og Vogavegar en svæðið er um 10 hektarar að stærð.
Haft er eftir bæjarstjóra Voga að samkomulagið sé afar þýðingarmikið fyrir íbúa Sveitarfélagsins Voga enda fyrirséð að sú uppbygging sem hefur átt sér hér stað mun halda áfram á komandi árum. Þá getur hið nýja verslunarsvæði orðið gríðarleg lyftistöng fyrir svæðið í heild sinni.
Vonast er til að uppbygging geti hafist á næstu tveimur til þremur árum en nú tekur við undirbúningur að skipulagsbreytingum, hönnun og samningum við rekstraraðila.