Nýjast á Local Suðurnes

Setja upp loftgæðamæla við Keflavíkurflugvöll

Isavia mun setja upp loftgæðamæla við Keflavíkurflugvöll og verða þeir komnir í notkun um miðjan júní. Með því fást betri upplýsingar um hvað flugumferð er að losa á hverjum tíma. Niðurstöður mælinga bæði á hljóðvist og loftgæðum verða aðgengilegar á vef Isavia.

Þetta kom fram á íbúafundi sem Isavia hélt í Bíósal Duus Safnahúsa í gær. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í Reykjanesbæ fór yfir málin frá sjónarhorni íbúa og í máli hans kom fram að mikið af kvörtunum hafi borist til hans frá íbúum bæjarins vegna ónæðis frá flugumferð, sérstaklega við lokun N/S brautar síðasta sumar sem jók umferð yfir bæinn.

Kjartan sagði á fundinum að helstu kröfur íbúa væru að ónæði af flugumferð verði lágmarkað eins og frekast er kostur og að rekstraraðilar flugvallarins geri allt sem í þeirra valdi stendur til að haga flugumferð um völlinn þannig að sátt geti skapast og að ónæði af henni verði sem minnst. Það hafi tekist víðast erlendis þar sem flugvellir eru nærri íbúabyggð.