Nýjast á Local Suðurnes

Samkaup og Zolo sektuð af Neytendastofu

Neytendastofa hefur sektað þrjú fyrirtæki, þar af tvö sem skráð eru á Suðurnesjum, vegna auglýsinga fyrirtækjanna á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir rafrettur. Suðurnesjafyrirtækin eru Samkaup og Zolo og dætur.

Sektin hljóðar upp á 300 þúsund krónur á hvort fyrirtæki og hefur þeim verið bannað að auglýsa sig með þeim hætti sem fjallað er um í ákvörðununum Neytendastofu.

Í umfjöllun Vísis um málið segir að í ákvörðun Neytendastofu um Samkaup komi fram að inni í verslunum Krambúðanna hefði mátt finna mynd sem líktist dósum fyrir nikótínpúða þar sem fram kæmi að verð á stykki væri 799 krónur en lækkað verð væri 699 krónur ef keyptar væru fimm dósir. Þá kom einnig fram að á samfélagsmiðlum félagsins mætti finna sams konar myndir.

Samkaup benti á að á myndinni væri hvergi að finna tilvísun til þess að um nikótínvörur væri að ræða, né sýndi hún neyslu eða aðra meðferð á nikótínvörum. Þá mætti ekki sjá nein vörumerki á myndinni eða hún sett fram í því skyni að auglýsa ákveðna vöru. Óljóst væri á myndinni hvaða vöru væri verið að vísa til.

Neytendastofa vildi ekki taka þessar skýringar gildar og segir í ákvörðun þeirra að þau telji brot Samkaupa alvarleg og stríða gegn góðum viðskiptaháttum sem varði ávanabindandi vörur og kunni að hafa áhrif á heilsu notenda. Því lagði stofnunin 300 þúsund króna stjórnvaldssekt á Samkaup.

Hvað varðar Zolo og dætur gerði Neytendastofa athugasemdir við bæði merkingar utan á versluninni og gildishlaðnar auglýsingar þeirra á samfélagsmiðlum. Utan á versluninni hafi staðið „vape shop“ og „vape snus“ auk þess sem mætti sjá auglýsingaskilti með mynd af rafrettum, segir í umfjöllun Vísis.

Fram kemur í ákvörðuninni að við meðferð málsins hafi fyrirtækin tilkynnt Neytendastofu að þau hefðu gert breytingar á markaðssetningu á samfélagsmiðlum og fjarlægt merkingar. Á síðari stigum málsins hafi þó komið í ljós að engar breytingar hafi verið gerðar. Neytendastofa taldi brot fyrirtækisins alvarleg og sektaði þau um 300 þúsund krónur.