Nýjast á Local Suðurnes

Samherji í ólgusjó með öfluga starfsemi á Suðurnesjum

Mynd: Heimasíða Samherja / Eldisstöð Grindavík

Sjávarútvegsfyrirtækið Samherji hefur undanfarna daga verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir að greint var frá því í fréttaskýringaþættinum Kveik að fyrirtækið hafi greitt háttsettum stjórnmála- og embættismönnum í Namibíu hundruð milljóna króna í þeim tilgangi að komast yfir eftirsóttan kvóta. Samherji er með öfluga starfsemi á Suðurnesjum, en fyrirtækið rekur bæði seiðastöðvar og áframeldi fyrir bleikju á Suðurnesjasvæðinu auk þess sem fyrirtækið tók í notkun glæsilega slátur- og pökkunarstöð í Sandgerði á síðasta ári.

Á Stað við Grindavík starfrækir Samherji bæði seiðastöð og áframeldi fyrir bleikju á samtals um 30.000 fermetra svæði. Seiðastöðin á Stað sér þannig áframeldinu á Stað fyrir seiðum en hluti seiðanna er fluttur til áframeldis í stöð fyrirtækisins á Vatnsleysuströnd.  Daglegur rekstur matfiskastöðvarinnar er að miklu leyti tölvustýrður og jafnframt hægt að fylgjast með því sem fram fer í stöðinni í gegnum myndavéla-eftirlitskerfi.

Áframeldisstöð fyrir bleikju staðsett á Vatnsleysuströnd á Reykjanesi. Stöðin, sem líkt og í Grindavík er á um 30.000 fermetra svæði, tekur við seiðum til áframeldis frá öllum seiðastöðvum fyrirtækisins.  Allt eldið fer fram utandyra í steyptum kerjum. Líkt og í Grindavík er daglegur rekstur stöðvarinnar að miklu leyti tölvustýrður og fylgst er með því sem fram fer í stöðinni í gegnum myndavéla-eftirlitskerfi.

Þá tók fyrirtækið í notkun slátur- og pökkunarstöð í Sandgerði á síðasta ári, en þar eru að mestu unnar afurðir frá eldisstöðvum fyrirtækisins í Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Þannig er fiskur úr eldisstöðvum fluttur lifandi til stlátrunnar og vinnslu í Sandgerði í sérútbúnum tankbílum þegar hann nær sláturstærð.