Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær sigraði vinabæjarmót ungmenna 2019

Stúlknalið úr Keflavík og drengjalið úr Njarðvík í knattspyrnu stóðu sig frábærlega á vinabæjarmóti ungmenna sem fram fór í Kristiansand í síðustu viku. Í ár var knattspyrna leikin og komu liðin Reykjanesbæ í fyrsta sæti.

Samanlagður árangur liðanna réði úrslitum á mótinu. Stúlkurnar sigruðu alla sína leika og drengirnir töpuðu aðeins einum leik í vítaspyrnukeppni. Að sögn Hafþórs Birgissonar íþrótta- og tómstundarfulltrúa voru þátttakendur bæði bænum og íþróttafélögunum til mikils sóma. Að auki hafi samvinna liðanna verið einstök. „Strákarnir studdu stelpurnar og stelpurnar strákana þannig að allur kynja- og bæjarhlutarígur var víðs fjarri. Stelpurnar launuðu strákunum að auki fyrir stuðninginn með því að taka hið víðfræga HÚH í lok síðasta leiks, þegar ljóst var að þær höfðu sigrað alla sína leiki. Þetta var frábært mót og stemmningin skemmtileg.“

Vinabæjarmótið hafa verið haldin frá árinu 1973. Alls hafa um 1.000 ungmenni ferðast frá Reykjanesbæ og tekið þátt í hinum mismunandi íþróttagreinum. Árið 2017 var vinabæjarmótið haldið í Reykjanesbæ og þá sigraði Reykjanesbær einnig. Sú íþrótt sem leikin var þá var golf. Næsta mót verður haldið í Kerava í Finnlandi í júní 2020 þar sem keppt verður í sundi.