Leitað að konu sem leitaði að hundi – Þyrla Landhelgisgæslunnar ræst út

Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir voru kallaðar út rétt fyrir klukkan sjö í kvöld til að leita að konu sem ekki hafði spurst til í 2-3 klukkutíma. Leitin er yfirstaðin en konan skilaði sér sjálf til byggða heil á húfi.
Mbl.is hefur eftir lögreglunni á Suðurnesjum að konan hafi verið á gangi ásamt kærasta sínum frá því í morgun í grennd við Voga á Vatnsleysuströnd þar sem þau leituðu að hundi sem hefur verið týndur í þrjá daga. Konan og maðurinn urðu viðskila en tilkynning barst lögreglu fyrst kl. 17:59 og var fljótt ákveðið að hefja leit þar sem hún hafði lengi verið á gangi og gæti hugsanlega verið orðin köld og þreytt, eða jafnvel slasað sig.
Ekki náðist símasamband við konuna en hún kom sér sjálf niður í Voga þaðan sem hún gat látið vita af sér og leit var hætt. Hundurinn er aftur á móti ennþá ófundinn.