Nýjast á Local Suðurnes

Isavia býst við að röskun verði á millilandaflugi í dag

Vegna aftakaveðurs sem Veðurstofa Íslands spáir í dag má búast við röskun á innanlands- og millilandaflugi í dag og í kvöld. Farþegar eru beðnir að fylgjast vel með tilkynningum frá flugfélögum og flugáætlunum á www.isavia.is, www.kefairport.is eða vef síns flugfélags.

Einnig er rétt að fylgjast vel með fréttum og tilkynningum um færð á vegum. Í veðri sem þessu er möguleiki á mjög slæmri færð um Reykjanesbrautina og jafnvel gæti leiðin milli Reykjavíkur og Keflavíkur orðið ófær, segir í tilkynningu á vef Keflavíkurflugvallar.

Upplýsingafulltrúar íslensku flugfélaganna WOW-Air og Icelandair segja í samtölum við fjölmiðla að allt verði gert til að halda áætlun. Síðustu lendingarnar á Keflavíkurflugvelli fyrir ofsaveðrið eru áætlaðar um klukkan 16 í dag og síðustu brottfarir um klukkan 17.