Hörður Axel kveður Keflavík

Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði karlaliðs Keflavíkur og þjálfari kvennaliðsins, hefur sagt upp samningi sínum við Keflavík. Mun hann þar að leiðandi ekki leika með karlaliðinu á næsta tímabili né þjálfa kvennaliðið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en þar segir að Hörður Axel hafi komið til Keflavíkur fyrir tímabilið 2008-2009 og hefur frá þeim tíma ávallt leikið með Keflavík, ef frá eru tekin tímabilin þar sem hann lék erlendis í atvinnumennsku. Ekki verður annað sagt en það verði sjónarsviptir af þessum frábæra körfuboltamanni. Þrátt fyrir að hafa ekki náð að landa bikarmeistaratitli né Íslandsmeistaratitli komst liðið ansi nálægt því í tvígang með Hörð Axel innanborðs. Tímabilið 2009-2010 þegar Keflavík tapaði fyrir Snæfelli úr lokaúrslitum og tímabilið 2020-2021 þegar Keflavík laut í lægra haldi fyrir Þór Þorlákshöfn í úrslitaeinvíginu. Þá náði Hörður frábærum árangri með kvennalið Keflavíkur í ár, á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari, en liðið endaði sem deildarmeistari en þurfti að játa sig sigraða gegn Val í úrslitum.
Um leið og Keflavík þakkar Herði Axel fyrir tíma hans hjá Keflavík óskum við honum góðs gengis í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni. Hann er ávallt velkominn aftur, hvort sem það verður í búning eða sem þjálfari. Hörður Axel á stóran stað í hjarta Keflvíkinga og telst svo sannarlega “Sannur Keflvíkingur”.
Mynd: Facebook Keflavík