Nýjast á Local Suðurnes

Einstök útimyndasýning á vegum Minja- og sögufélags Grindavíkur

Minja- og sögufélag Grindavíkur mun opna útiljósmyndasýningu á gafli fisverkunarfyrirtækisins Þróttar á horni Ægisgötu og Verbrautar, beint á móti sýningarglugga Þorbjarnar hf., í kvöld fimmtudag kl. 19:00. Þessi myndasýning á sér varla hliðstæðu hér á landi og er um spennandi tilraunaverkefni að ræða.

Myndasýningin mun rúlla á gaflinum frá kl. 19 á kvöldin og til 7 á morgnana. Í þessari fyrstu myndasýningu verða sýndar um 3000 fótboltamyndir frá Grindavík frá árinu 2003.

Að sögn Einars Lárusson hjá Minja- og sögufélaginu hefur þetta verið nokkurn tíma í undirbúningi. Einfaldast hafi verið að byrja á fótboltamyndunum enda nóg til. Hins vegar er verið að undirbúa gamlar myndir úr ýmsum áttum, segir á Grindavik.is.

Vegfarendur eru beðnir að fara varlega á gatnamótunum og gæta þess að teppa ekki umferð.