Nýjast á Local Suðurnes

Arnbjörn Ólafsson: “Hef hlustað á loforð þingmanna síðan ég kaus í mínum fyrstu kosningum”

Arnbjörn Ólafsson, markaðs- og alþjóðafulltrúi Keilis á Ásbrú, skipar annað sætið á lista Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar til Alþingis. Arnbjörn segir helstu ásæður þess að hann ákvað að taka slaginn fyrir þessar kosningar vera þær að þingmenn og frambjóðendur hafi ítrekað valdið honum vonbrigðum með loforðum í aðdraganda kosninga.

“Það var mikilfengleg kona sem sagði eitt sinn: „Þegar eitthvað bjátar á í samfélaginu getur maður annaðhvort gert ekkert eða eitthvað. Ég er búinn að prófa að gera ekkert.“ Þetta var reyndar úr kvikmyndinni Wonder Woman. En hún hefur samt rétt fyrir sér. Það er ekki hægt að þræta við konu í stálkorsett.

Ég er búinn að hlusta á þingmenn og fólk í framboði lofa mér hlutum síðan ég tók kaus í mínum fyrstu kosningum. Þessir sömu aðilar hafa ítrekað valdið mér vonbrigðum. Ég gat því haldið áfram að kjósa þá, vel vitandi að inntantóm loforðin myndu halda áfram að koma í aðdraganda kosninga, eða reynt að hafa áhrif á stjórnmálin. Þarna fann ég samhljóm með Bjartri framtíð. Flokk sem leggur áherslu á að breyta ímynd stjórnmálanna. Að við séum heiðarleg og opinská, og að við gleymum okkur ekki í loforðaflaum heldur hugsum að heildarlausnum til framtíðar. Þessvegna.” Sagði Arnbjörn.

Þá segir Arnbjörn að ferlið í aðdraganda stjórnarslitanna hafi sannfært hann um að hann sé í réttum flokki, að hlutverk minni flokka geti orðið stórt og að það hafi sýnt sig að þeir geti haft áhrif.

“Ef sagan undanfarið ár hefur kennt okkur eitthvað er það að það er hægt að vera lítill flokkur og taka þátt í að mynda ríkisstjórn, þar sem brugðist er við ákalli um ábyrgð stjórnmálaflokka að afstýra stjórnarkreppu. Það er líka hægt að vera lítill flokkur sem stendur fast á sínum gildum og er tilbúinn að standa upp gegn flokknum með breiða baklandið og löngu söguna, þegar honum misbýður hvernig hann hagar sér.

Fyrir mér hefur þetta ferli sannfært mig um að ég er í réttum flokki, en líka um hlutverk minni flokka í lýðræðislegu samfélagi okkar. Þar sem allir skipta máli. Líka þeir sem eru með stuttu söguna, heyrist minna í eða hafa ekki háttsetta vini á réttum stöðum í kerfinu.” Segir Arnbjörn.

Arnbjörn varð að lokum við ósk okkar um að svara nokkrum spurningum sem snúa ekki að stjórnmálum.

Nafn: Arnbjörn Ólafsson

Hjúskaparstaða og börn: Giftur Þuríði Halldóru Aradóttur Braun, forstöðumanni Markaðsstofu Reykjaness. Ég á tvö börn frá fyrra sambandi Silju (16) og Óla Björn (11).

Heimili: Við búum í húsinu Steinar á Hamarsbraut í Hafnarfirði.

Menntun: Ég lærði heimspeki í Háskóla Íslands og skapandi verkefnastjórnun í Danmörku.

Atvinna: Markaðs- og alþjóðafulltrúi Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ, þar sem ég hef starfað síðan 2009.

 

Áhugamál: Ég er forfallinn matarnörd, bæði þegar kemur að því að elda og borða hann. Ég er ekki kominn á kökuskreytingarstigið eins og sumir stjórnmálamenn en ég hef mikinn áhuga á því að nýta hráefni sem við erum kannski ekki að borða dags daglega eins og innyfli. Ef ég opna einhverntíman veitingastað á hann að heita „Mjá bjóða yður iður“.

Uppáhaldsmatur og uppáhaldsdrykkur: Djís. Þetta er eins og að velja á milli barnanna sinna … Silja þú veist hvort ykkar það er 🙂 En það er hægt að gera frábæran mat úr góðu hráefni. Ég bý svo vel að tengdapabbi minn er bóndi í Fljótshlíðinni og við vorum að fá nýslátrað frá honum. Það er fátt betra. Konan mín gerir alveg hreint mean whiskey sour. Það er góður drykkur og göróttur.

Uppáhaldsbók: Bækurnar á náttborðinu mínu eru oftar en ekki matreiðslubækur. Ég er annars ansi góður að byrja á bókum án þess að klára þær. Ein bók sem ég hef klárað ansi oft hinsvegar er Hringadróttinssaga.

Eitt atriði sem fólk veit almennt ekki um mig: Það er fátt sem fólk veit ekki um mig sem það getur ekki auðveldlega komist að. Ég er eins og opin bók. En ég hef mikið dálæti á karaoke. Held samt að það séu ansi margir sem vita það.

Ertu hjátrúarfullur? Hvernig? Nei. 7-9-13. En í alvöru … nei. Raunveruleikinn er alveg nógu kyngimagnaður eins og hann er. Við þurfum ekki hjátrú til þess að gera hann ótrúlegri en hann er. Eins og Douglas Adams sagði „Er ekki nóg að sjá að garðurinn okkar sé fallegur, án þess að þurfa að trúa því að það búi álfar þar líka“.

Hvaða persónu úr mannkynssögunni værir þú helst til í að drekka kaffi með: Jesú. Þá getum við bara klárað þessa spurningu í eitt skipti fyrir öll og haldið áfram.

Lýstu þér í fimm orðum: Það svakalegasta við mig er …

Ef þú mætti vera einhver annar í einn dag: Þegar ég var unglingur dreymdi mig um að vera Samantha Fox í einn dag eða svo. Ég held að ég þurfi ekki að útskýra afhverju. Í dag. Tjah. Trump. Myndi nýta tímann og segja af mér. Eða Bjarni Ben. Af sömu ástæðu.

Lífsmottó: Þetta er eina lífið sem þú átt. Það er ekkert sorglegt við þá vitneskju. Það er stórkostlegt að við skulum yfir höfuð vera til.