Nýjast á Local Suðurnes

Isavia ber að afhenda Kaffitári gögn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál þess efnis að Isavia beri að afhenda Kaffitári gögn sem innihalda viðskiptaupplýsingar samkeppnisaðila Kaffitárs.

Félagið taldi nauðsynlegt að dómstólar myndu skera úr um það hvaða gögn teljist viðkvæm fjárhags- og viðskiptagögn í skilningu upplýsingalaga. Isavia hefur alltaf borið hag viðskiptavina sinna fyrir brjósti og ekki talið rétt að birta viðkvæm viðskiptagögn þeirra án dómsúrskurðar.

Í tilkynningu frá Isavia segir að mikilvægt sé að  niðurstaða hafi fengist í héraðsdómi en telur þó mikilvægt að hæstiréttur fái málið til efnislegrar meðferðar og endanlegrar niðurstöðu.

Þau gögn sem málin snúast um eru gögn þeirra fyrirtækja sem þátt tóku í forvali um leigu á verslunar- og veitingahúsnæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þær upplýsingar sem þátttakendur í forvalinu veittu eru alls eðlisólíkar og mun ítarlegri en þær upplýsingar sem bjóðendur í hefðbundnum útboðum veita.