Nýjast á Local Suðurnes

Frábær blakhelgi að baki – Tveir titlar til Keflavíkur

Um helgina fóru fram síðustu umferðirnar í neðri deildum karla og kvenna í blaki. Konurnar sem spila í 5. deild fóru á Ísafjörð á meðan karlarnir sem spilaí 3. deild fóru til Húsavíkur.

Þar sem 12 lið eru í 5. deild kvenna þá var liðunum skipt upp í tvo úrslitariðla eftir stöðu liðanna í riðlinum fram að þessu móti, efstu sex fóru í A úrslit og kepptu um deildarmeistaratitilinn. Keflavík fór inn í þann riðil sem fjórða besta liðið, en þar sem öll lið byrjuðu núna á 0 stigum var möguleikinn alltaf fyrir hendi.

Tap eftir oddahrinu í fyrsta leik gegn Aftureldingu var ekki að hjálpa liðinu, en stigið sem liðið fékk fyrir að vinna hrinu 2 átti eftir að reynast mikilvægt. Ekkert annað var í stöðunni eftir þessi úrslit en að treysta á að Hrunamenn tækju stig af Afturledingu og Keflavík myndi vinna sína leiki 2-0 og taka þannig öll 12 sigin sem í boði væru. Allt gekk upp og var því síðasti leikur mótsins, leikur Hrunamanna og Keflavík úirslitaleikur. Keflavík var á þessum tímapunkti búnar að tryggja sér bronsið, hins vegar með 2-1 sigri gætu þær tekið silfur og með 2-0 sigri var gullið þeirra. Þess má geta að Hrunamenn, eða konur höfðu ekki tapað hrinu þegar kom að þessum leik. 2-0 sigur hjá Keflavík var niðurstaðan og deildarmeistaratitill í höfn. Frábær leikur hjá Keflavík, þar sem þær voru rétt gíraðar frá fyrstu mínútu. Og það er ekki hægt að tala um þennan leik án þess að minnast á Sæunni Svönu sem átti 18 uppgjafir í röð og sá til þess að það var aldrei nein spenna í lokahrinunni sem Keflavík vann 25-4.

“Maður er enn á bleiku skýi,” sagði Svandís Þorsteinsdóttir fyrirliði Keflavíkurkvenna. “Þó að við höfum farið inn í þessa úrslitakeppni sem lið í 4. sæti og töpum fyrsta leik þá hafði ég alltaf trúa á okkur. Það voru veikindi og smávægileg meiðsli í hópnum, en allt gekk upp stelpurnar voru dásamlegar.”

Nóg var dramatíkin hjá stelpunum, en hún var þó engin miðað við það sem Keflavíkur strákarnir lentu í. Hjá strákunum var engin úrslitakeppni, og Keflavík fór inn í helgina í efsta sætu en stutt var í liðið í fjórða sæti. Eins og hjá stelpunum byrjuðu þeir illa, töpuðu fyrstu hrinu og í stöðunni 4-0 fyrir Keflavík í hrinu 2 þá slitnar hásinin hjá Michal sem er spilandi þjálfari liðsins. Blak er þannig að það verða sex að vera inn á allan tímann og þar sem ekki var von á sjöunda leikmann liðsins fyrr en um kvöldið voru góð ráð dýr. Michal lét sig hafa það að vera stórþjáður og hélt sér inn á vellinum. Keflavík tókst að vinna þessa hrinu en töpuðu svo oddahrinunni. 1 stig sem átti eftir að vera mikilvægt. Einar Snorrason fyrirliði Keflavíkur fór með þjálfarann upp á spítala og á þeim tíma sem tók að skoða og gifsa Michal þurftu þeir fjórir leikmenn sem eftir voru að gefa tvo leiki. Staðan fyrir lokadaginn var því skelfileg.

Hjörtur Harðarson, sem flestir tengja við Körfuna hjá Keflavík mætti um kvöldið og því nógu margir leikmenn til staðar til að spila síðustu tvo leikina í gær. En það þurfti að treysta á hagstæð úrslit í flestum leikjum sunnudagsins, og það var eins og blakguðirnir hefðu verið með Keflavík þessa helgina því liðin fyrir ofan Keflavík voru að tapa gegn neðstu liðum deildarinar. Þegar kom að síðasta leik dagsins, sem var gegn Haukum þá var staðan óvænt þannig að Keflavík gat unnið deildina með því að sigra 2-0 á meðan Haukar gætu komist uppfyrir Keflavík og hirt af þeim bronsið. Strákarnir vissu það hins vegar ekki þar sem annar leikur var að klárast á meðan þeir voru að undirbúa sig fyrir þennan leik. Í leik þar sem Keflavík sótti lítið, enda snérist dagskipunin aðalega um að gera ekki mistök tókst Keflavík að vinna 2-0 með minnsta mögulegan mun og fyrri hrinuna eftir upphækkun, 26-24 og 25-23.

Einar Snorrason fyrirliði Keflavíkur var að sjállfsögðu sáttur, “ég vissi strax hvað hafði gerst þegar Michal meiðist og hugsunin sem fór af stað hjá  mér var ekki falleg. Það hefði verið auðvelt að gefast upp en við gerðum það ekki. Dagskipurnin fyrir sunnudaginn var bara að klára okkar leiki og vona það  besta. Strax eftir sigurinn gegn Haukum þá vissum við ekki hvað hafði gerst, ekki fyrr en Haukarnir óskuðu okkur til hamingju. Frábær tilfinning eftir algjöran tilfinningarússibana sem þessi helgi var”

Frábær helgi hjá blakdeild Keflavíkur sem eru Íslandsmeistarar í 3. deild karla og 5. deild kvenna, og það á fimm ára afmæli deidarinnar en deildinn á afmæli 26. mars. Þess má geta að það liðu 26 mínútur á milli titla hjá deildunum.