Nýjast á Local Suðurnes

Ellert Heiðar syngur í úrslitaþætti Voice Ísland

Grindvíski sjómaðurinn Ellert Heiðar er kominn í úrslitaþáttinn í The Voice Ísland, eftir frábæra framistöðu á undanúrslitakvöldinu síðastliðið föstudagskvöld.

Ellert Heiðar var síðastur á svið í átta manna úrslitum og tók hann lagið Álfar eftir Magnús Þór Sigmundsson og Hafliða Wilhelmsson. Útkoman var stórkostleg, kraftmikill og einlægur söngur hjá Ellert sem var eini keppandinn sem söng lag á íslensku. Þetta kemur fram á Grindavik.net.

Næsta föstudagskvöld í opinni dagskrá á Skjá Einum er svo úrslitakeppnin sem haldin er í Atlantic Studios á Ásbrú. Fjórir keppendur eru eftir og því stuðningur við Ellert mikilvægur en landsmenn kjósa sigurvegarann í The Voice Ísland. Hægt er að nálgast miða á úrslitaþáttinn sem fram fer þann 4. desember hér.