Nýjast á Local Suðurnes

Vissu ekki af 100 milljón króna framúrkeyrslu

Bæjarráð Reykjanesbæjar fékk ekki upplýsingar um aukið umfang við breytingar og viðgerðir á Njarðvíkurskóla, þrátt fyrir að kostnaðaraukning hafi verið fyrirsjáanleg við upphaf verkefnisins. Verkefnið endaði tæplega 100 milljónum króna yfir kostnaðaráætlun.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bókun Sjálfstæðisflokks sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar. Þar segir einnig að “…Því miður var ekki gerð ný áætlun þegar í ljós kom hvert stefndi og var okkur gefin sú skýring af meirihluta Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks að lokauppgjör vegna framúrkeyrslu verkefnisins hafi ekki legið fyrir fyrr en í lok árs 2021.”

Þá segir í bókuninni starfsfólk á Umhverfis- og skipulagssviði hafi “flaggað” umframvinnu og umframkeyrslu við sinn yfirmann, en það hafi ekki skilað sér til bæjarráðs. Því þurfi að endurmeta umfang og áætlanir þegar ljóst sé að kostnaður muni aukast til muna.

Á þessu má vera ljóst að snemma í ferlinu vissu menn að framkvæmdin væri umfangsmeiri og myndi hafa meiri kostnað í för með sér. Þrátt fyrir það var aldrei lögð fram kostnaðaráætlun til samþykkis.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að þegar í ljós koma vankantar í framkvæmdum á vegum bæjarins sé staldrað við og umfang sem og áætlun verksins endurmetið og fari síðan í formlegt samþykki, þannig að hægt sé að veita aðhald í framkvæmdum. Segir í bókuninni.

Upphaflegt tilboð aðalverktaka verksins hljóðaði upp á tæpar 88 milljónir króna, en endanlegur kostnaður við verkið var rúmar 185 milljónir króna. Kostnaðaráætlun Reykjanesbæjar hljóðaði upp á rúmlega 84 milljónir króna.