Vilja upplýsingar um verklag við snjómokstur
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafa óskað eftir upplýsingum um framkvæmd snjómoksturs í sveitarfélaginu.
Mjög krefjandi aðstæður sköpuðust í lok desember sökum gríðarmikillar snjókomu og óveðurs. Töluvert hefur borið á óánægju á meðal bæjarbúa með mokstur og hreinsun á snjó í kjölfarið, meðal annars í umræðum í Íbúahópum á samfélagsmiðlum.
Bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á síðasta fundi bæjarstjórnar í heild sinni:
„Sjálfstæðisflokkurinn óskar eftir upplýsingum um hvert verklag umhverfissviðs er vegna snjómoksturs í Reykjanesbæ, hvers konar samningar eru í gangi við verktaka á svæðinu og hvernig þessi vetur hefur gengið. Við óskum eftir að þetta fái umræðu í umhverfis- og skipulagsráði og að bæjarstjóri gefi skýrslu um málið á næsta bæjarstjórnarfundi.“